Pragma.is | Lög Pragma
40706
page,page-id-40706,page-template,page-template-full_width,page-template-full_width-php,ajax_fade,page_not_loaded,,select-theme-ver-1.4,smooth_scroll,wpb-js-composer js-comp-ver-4.4.4,vc_responsive

Lög Pragma

1.kafli
Nafn og tilgangur

1.gr.
Félagið heitir Pragma, félag tækni- og verkfræðinema við Háskólann í Reykjavík. Á ensku skal félagið nefnast Pragma, Reykjavík University Engineering Student’s Organization. Aðsetur þess er í Háskólanum í Reykjavík og varnarþing er í Reykjavík.

2.gr
Tilgangur félagsins er
1. að gæta hagsmuna og velferðar tækni- og verkfræðinema við Háskólann í Reykjavík;
2. að taka þátt í samvinnu akademískt menntaðra manna og stuðla að mótun tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík.
3. Að efla tengsl tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík við atvinnulífið.

3.gr.
Tilgangi sínum skal félagið ná með því
1. að skapa tengsl við félög tækni- og verkfræðinga og tækni- og verkfræðinema hér á landi sem og erlendis;
2. að stofna til umræðu um tækni- og verkfræðileg málefni;
3. að stuðla að tækni- og verkfræðilegri þekkingu;
4. að efna til mannfagnaða í nafni félagsins;
5. að móta tengsl við fyrirtæki og stofnanir sem starfa á vettvangi sem tengist námi tækni- og verkfræðinema.

4.gr.
Starfstími og reikningsár Pragma er á milli aðalfunda.

II.kafli
Stjórn félagsins

5.gr.
Stjórn skal skipuð fimm félagsmönnum. Stjórn skal skipuð formanni, varaformanni, gjaldkera, upplýsingastjóra og skemmtanastjóra.

Komi allir kjörnir stjórnarmeðlimir úr verkfræðideild eða allir úr tæknifræðideild skal skipaður 6. stjórnarmeðlimur úr þeirri deild sem að annars hefði ekki fulltrúa í stjórn.

6.gr.
Stjórn Pragma stýrir málefnum félagsins með þeim takmörkunum sem lög þessi setja. Hún tekur ákvarðanir um starfsemi félagsins og er ábyrg fyrir fjárreiðum og skuldbindingum gagnvart öðrum aðilum.

7.gr.
Formaður Pragma ritar firma félagsins. Formaður og gjaldkeri hafa prókúru félagsins.

8.gr.
Formaður, í forföllum hans varaformaður, kemur fram fyrir hönd Pragma innan sem utan Háskólans í Reykjavík.

9.gr.
Formaður, í fjarveru hans varaformaður, stjórnar fundum stjórnar. Í fjarveru þeirra stjórnar einhver stjórnarmanna fundi samkvæmt ákvörðun hverju sinni.

10.gr.
Stjórn Pragma skal beita sér fyrir því að fulltrúar tækni- og verkfræðinema sitji í ráðum og nefndum tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík. Stjórn Pragma sér um að skipa þessa fulltrúa.

11.gr.
Varaformaður, í fjarveru hans upplýsingastjóri, ritar fundargerðir stjórnarfunda. Varaformaður hefur umsjón með heimasíðu félagsins svo og umsjá aðsendra bréfa. Varaformaður skal vera tengiliður Pragma við önnur félög verkfræðinema, innlend sem erlend.

12.gr.
Gjaldkeri ber ábyrgð á bókhaldi félagsins. Gjaldkeri undirbýr fjárhagsáætlun félagsins eitt ár fram í tímann og leggur hana fyrir stjórn til samþykktar fyrir septemberlok ár hvert. Hann skal einnig leggja fyrir stjórnina fjárhagsstöðu félags eigi síðar en 31. janúar ár hvert. Verði gjaldkera ljóst að tap sé á rekstri félagsins skal boða til fundar innan stjórnar hið fyrsta og tekin sameiginleg ákvörðun um aðgerðir.

13.gr.
Reikningsár félagsins er á milli aðalfunda. Reikningum félagsins skal lokað 3 sólarhringum fyrir boðaðan aðalfund. Gjaldkeri Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík skal fara yfir ársreikning félagsins. Gjaldkeri SFHR skal fá ársreikninginn til yfirferðar eigi síðar en 2 virkum dögum fyrir aðalfund svo hægt sé að bera þá upp til samþykktar.

14.gr.
Starfstími stjórnar er á milli aðalfunda.

15.gr.
Stjórn Pragma skal halda fundi eigi sjaldnar en einu sinni í mánuði. Formaður boðar til stjórnarfunda. Stjórnarmeðlimir geta óskað þess að boðað verði til stjórnarfundar.

16.gr.
Meirihluti atkvæða ræður á stjórnarfundi. Stjórn telst ályktunarbær, ef meirihluti stjórnarmeðlima situr fund. Falli atkvæði jafnt ræðst atkvæðagreiðsla af atkvæði formanns.

17.gr.
Stjórn félagsins skal leita leiða til fjármögnunar félagsins.

18.gr.
Stjórn Pragma getur boðað til almenns félagsfundar til að ræða málefni Pragma við félagsmenn. Formaður Pragma opnar fundinn og tilnefnir fundarstjóra sem stýrir umræðum. Stjórn er skylt að boða til almenns félagsfundar ef fimmtungur félagsmanna óskar þess með skriflegri beiðni til stjórnar félagsins. Félagsfundir skulu auglýstir tryggilega með tveggja daga fyrirvara hið minnsta.

19.gr.
Komi fram tillaga um vantraust á stjórn eða einstaka stjórnarmeðlimi skal stjórn boða til félagsfundar, með tryggilegum hætti, t.a.m. með tölvupósti, innan tveggja vikna frá þeim tíma er tillagan barst til stjórnar. Fundurinn er lögmætur ef tveir þriðju hlutar félagsmanna mæta. Tillagan hlýtur samþykki ef þrír fjórðu hlutar fundarmanna greiða henni atkvæði. Hljóti tillaga samþykki skal fundarstjóri boða til aukafundar innan tveggja vikna, með viku fyrirvara hið minnsta, með tryggilegum hætti, t.a.m. með tölvupósti. Á þeim fundi skal kjósa bráðabirgðastjórn eða stjórnarmeðlim, sem gegnir embætti fram að næsta aðalfundi. Meirihluti atkvæða ræður kosningu. Framboð til stjórnar skal berast fundarstjóra fyrir upphaf fundar.

III. kafli
Aðalfundur og kosningar

20.gr.
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda í mars ár hvert. Til fundarins skal boða með auglýsingu á tryggilegan hátt, t.a.m. með tölvupósti, með 10 daga  fyrirvara hið minnsta, og er hann þá lögmætur. Tillaga hlýtur samþykki ef tveir þriðju hlutar fundarmanna greiðir henni atkvæði.

21.gr.
Mál þessi skulu tekin til meðferðar á aðalfundi í þessari röð:
1. Stjórn félagsins gerir grein fyrir störfum sínum.
2. Stjórn félagsins leggur fram árseikning félagsins.
3. Lagabreytingar.
4. Önnur mál.
5. Tilkynnt skal um úrslit kosninga.
6. Ný stjórn tekur við.

22.gr.
Kosningar til stjórnar og annara embætta innan Pragma skal halda í mars ár hvert. Kosið er í embætti stjórnar sbr. 5. gr. og til fulltrúa í upplýsinganefnd Pragma ásamt fulltrúum í skemmtinefnd.

23.gr.
Aðalfund Pragma skal halda eigi síðar en 7 virkum dögum eftir lok kosninga.

24.gr.
Kosningarétt hafa allir félagsmenn. Kjörgengi hafa þeir félagsmenn sem greitt hafa félagsgjöld. Framboð skulu vera skrifleg og undirrituð eða staðfest í gegnum skólanetfang frambjóðanda. Auglýsa skal eftir framboðum minnst 20 dögum fyrir boðaðar kosningar. Framboðsfrestur er 10 dagar fyrir boðaðar kosningar.

25.gr.
Ef frambjóðandi er einn í framboði þarf hann tvo þriðju hluta greiddra atkvæða til að hljóta kosningu. Ef ekki hefur hlotist lögleg kosning í öll embætti stjórnar, skal nýkjörin stjórn auglýsa eftir framboðum í laus embætti ekki síðar en 10 dögum eftir aðalfund. Skal að öðru leyti fara um framkvæmd kosninganna eftir 24. gr. Hafi, eftir þessa síðari umferð kosninga, ekki hlotist lögleg kosning í öll embætti, skal nýkjörin stjórn skipa í laus embætti úr hópi félagsmanna sem hafa kjörgengi.

Ef ekki hefur hlotist lögleg kosning í önnur embætti en stjórnarembætti skal nýkjörin stjórn auglýsa eftir umsóknum í þau embætti úr hópi kjörgengra félagsmanna eigi síðar en mánuði eftir aðalfund. Nýkjörin stjórn skipar í þessi embætti úr hópi umsækjenda eigi síðar en 6 vikum eftir aðalfund.

26.gr.
Sjórn Pragma skal skipa kjörstjórn úr hópi félagsmanna og skal hún skipuð þremur aðilum. Jafnframt skal stjórn Pragma skipa þrjá aðila í kærunefnd vegna kosninga, og tvo til vara, alls fimm aðila. Þeir sem sæti eiga í kjörstjórn hafa fyrirgert rétti sínum til framboðs í viðkomandi kosningum. Við val á aðilum í kærunefnd skal skipa aðila sem að ekki eru nemendur í verkfræðideild Háskólans í Reykjavík. Komi til þess að vafi leiki á hæfi einstakra nefndarmanna skal kærunefnd öll, þ.m.t. varamenn taka ákvörðun um hæfi viðkomandi.

27.gr.
Þrátt fyrir ákvæði 26. gr. er stjórn Pragma heimilt að fela kjörstjórn Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík stjórn kosninganna.

28.gr.
Kosningar skulu fara fram með rafrænum hætti og skal kjörstjórn sjá til þess að öllum kröfum um öryggi og skilvirkni sé fullnægt. Kosningar skulu vera leynilegar.

29.gr.
Kærur vegna kosninga skulu berast kærunefnd skriflega eigi síðar en þremur virkum dögum eftir að kosningar fóru fram. Kærunefnd skal kveða upp úrskurð um efni kæru eigi síðar en viku eftir að kærufrestur rann út. Kærunefnd hefur endanlegt úrskurðarvald um efni kæru. Komist kærunefnd að því að kosning, í heild eða að hluta til, hafi ekki verið framkvæmd samkvæmt áður birtum reglum um framgang kosninga, skal kjörstjórn boða til kosninga á ný í viðkomandi embætti, eigi síðar en viku eftir að kærunefnd skilar úrskurði sínum. Skal þá auglýsa eftir framboðum með viku fyrirvara og rennur framboðsfrestur út sólahring fyrir boðaðar kosningar. Að öðru leyti skulu sömu reglur gilda um framkvæmd aukakosninga og aðalkosninga

30.gr.
Ef kjörinn félagsmaður getur ekki, af einhverjum ástæðum, sinnt embætti sínu og ákveður að hætta þá er stjórn Pragma heimilt að skipa annan félagsmann í hans stað. Stjórn skal leitast við að skipa þann aðila sem næstur kom í kosningum um það embætti.

IV. kafli
Félagsmenn

31.gr.
Allir þeir er stunda nám við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík njóta aðildar að félaginu. Ef félagsmaður hættir námi við deildina fellur aðild hans að félaginu sjálfkrafa niður. Stjórn félagsins getur þó heimilað félagsmanni sem hættir námi við deildina að vera áfram í félaginu út skólaárið telji stjórn það þjóna hagsmunum félagsins.

32.gr.
Stjórn Pragma er heimilt að ákvarða félagsgjöld. Þá er stjórn heimilt að veita þeim sem greiða félagsgjöld fríðindi umfram aðra.

33.gr.
Þrátt fyrir 31. grein er stjórn félagsins heimilt að veita nemendum í öðrum deildum við Háskólann í Reykjavík aukafríðindi þau sem greiðandi félagsmenn njóta. Þessir aðilar geta þó aldrei orðið fullgildir félagsmenn Pragma.

34.gr.
Stjórn félagsins, að frumkvæði 50 félagsmanna, er heimilt að víkja félagsmanni úr félaginu vegna ámælisverðrar háttsemi. Skila þarf skriflegri beiðni til stjórnar þar sem ámælisverða háttsemin er rökstudd á ítarlegan hátt.

35.gr.
Stjórn félagsins er heimilt að útnefna heiðursfélaga og verndara Pragma meti hún tilefni til.

36.gr.
Stjórn Pragma skal sjá til þess að hver árgangur innan tækni- og verkfræðideildar tilnefni trúnaðarmann úr sínum röðum til þess að taka við athugasemdum frá samnemendum sínum. Trúnaðarmaður situr í gæðaráði tækni- og verkfræðideildar. Trúnaðarmenn skulu koma athugasemdum nemenda á framfæri við gæðaráðið. Í gæðaráði sitja trúnaðarmenn og 3-5 starfsmenn tækni- og verkfræðideildar.

37.gr.
Sérhver trúnaðarmaður getur fengið boð frá stjórn Félags tækni- og verkfræðinema við Háskólann í Reykjvavík um að sitja fund til að ræða athugasemdir sem kunna að koma frá nemendum.

V. kafli
Félagsdeildir

38.gr.
Upplýsinganefnd skal vinna að því að fá aðila úr atvinnulífinu til að standa fyrir fyrirlestrum og námskeiðum er tengjast þeim tækni- og verkræðigreinum sem kenndar eru við Háskólann í Reykjavík. Hlutverk upplýsinganefndar er að ná fram markmiðum 2., 3. og 5. tl. 3. gr.

39.gr.
Upplýsinganefnd Pragma skal skipaður þremur til fjórum aðilum, upplýsingastjóra og tveimur til þremur upplýsingafulltrúum. Kosinn er upplýsingastjóri og í embætti annars fulltrúa upplýsinganefndar. Sá aðili sem fær flest atkvæði í embætti upplýsingarfulltrúa hlýtur kosningu. Upplýsingarstjóri skal svo velja tvo til þrjá fulltrúa nemenda í embætti upplýsingafulltrúa. Kosningarnar skulu fara fram samhliða kosningum til stjórnar Pragma. Upplýsingastjóri situr í stjórn Pragma.

40.gr.
Skemmtinefnd hefur yfirumsjón með skemmtunum á vegum Pragma. Hlutverk skemmtinefndar er að ná fram markmiðum 4. og 5. tl. 3. gr.

41.gr.
Skemmtinefnd Pragma skal skipuð fimm aðilum, skemmtanastjóra og fjórum fulltrúum . Kosinn er skemmtanastjóri og í embætti fulltrúa skemmtinefndar. Þeir þrír aðilar sem fá flest atkvæði í embætti fulltrúa skemmtinefndar hljóta kosningu. Skemmtanastjóri skal svo velja einn fulltrúa nemenda á fyrsta ári til þess að sitja í skemmtinefnd. Kosningarnar skulu fara fram samhliða kosningum til stjórnar Pragma. Skemmtanastjóri situr í stjórn Pragma.

42.gr.
Stjórn félagsins getur óskað eftir þátttöku félagsmanna í starfsemi í þágu þess og skipað nefndir ef þess gerist þörf.

VI. Kafli
Breytingar á lögum

43.gr.
Lögum félagsins má breyta á aðalfundi eða sérstaklega boðuðum lagabreytingafundi boðuðum með 10 daga fyrirvara, hið minnsta, og þurfa 2/3 hlutar fundarmanna að greiða atkvæði með lagabreytingunni til að hún verði samþykkt.

Stjórn er skylt að boða til lagabreytingarfundar innan þriggja daga ef fimmtungur félagsmanna óskar þess. Stjórn er heimilt að boða til slíks fundar að eigin frumkvæði. Slíkur fundur skal boðaður sérstaklega með 10 daga fyrirvara. Allir félagsmenn hafa rétt til að koma með tillögur að lagabreytingum. Tillögum til lagabreytinga skal skilað til stjórnar eigi síðar en 7 dögum fyrir boðaðan fund. Tillögur skulu auglýstar á tryggilegan hátt þremur dögum fyrir boðað fund, t.a.m. með tölvupósti. Í fundarboði skal þess getið sérstaklega að tillaga til lagabreytinga verði tekin til meðferðar á fundinum og skal efni hennar lýst.

Heimilt er á aðalfundi eða lagabreytingarfundi að koma með breytingartillögu við löglega fram komna breytingartillögu svo lengi sem tillaga fundarins breytir ekki efni upphaflegu breytingartillögunnar að upplagi.

Lagabreyting öðlast gildi frá þeim tíma þegar hún er samþykkt á aðalfundi eða öðrum lagabreytingarfundi. Á lagabreytingafundi skal fylgja fundarsköpum.

44.gr.
Ágreining um lög félagsins skal útkljá með gerðardómi. Stjórn félagsins skipar einn mann í gerðardóm, félagsfundur annan og deildarforseti tækni- og verkfræðideildar tilnefnir oddamann úr hópi kennara verkfræðideildar.

45.gr.
Nú kemur fram tillaga um að félaginu skuli slitið. Skal hún þá sæta sömu meðferð og tillaga til lagabreytinga, skv. 43. gr.

46.gr.
Eignir félagsins ganga til tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík til varðveislu þegar félaginu er slitið þar til tækni- og verkfræðinemar stofna annað félag í sama tilgangi sem telst arftaki Pragma og fær því eignir þess.

47.gr.
Lög þessi skulu ætíð birt á heimasíðu Pragma þar sem öllum félagsmönnum er heimilaður aðgangur.

48.gr.
Bráðarbirgðar grein tekur gildi við aðalfund 29. mars 2017 og gildir að næstu kosningum 2018. Nýkjörinn Technisstjóri situr út stjórnarárið.

49.gr.
Lög þessi öðlast gildi 29. mars 2017

Háskólinn í Reykjavík, 29.03.2017